Um Gleymmérei Music
Skóli tónlistarfólksins
Gleymmérei Music, áður Söngsteypan, er skóli sem leggur áherslu á söngtækni, lagasmíðar og þróun tónlistarfólks með ýmiskonar námskeiðum, einkatímum, fyrirlestrum og vinnustofum.
Hugmynd Gleymmérei Music kom þegar ég fann sjálf, eftir að hafa verið fyrst nemandi og síðar kennari í Söngsteypunni, að það var skarð í námskeiðum þegar kom að því að kenna ýmislegt sem kemur að tónlistarbransanum á meðan eða eftir að við lærum á hljóðfærin okkar, hvort sem það er söngur eða eitthvað annað hljóðfæri. Með þessum vettvangi vil ég búa til ýmis konar viðburði sem tengt er því sem tónlistarfólk vill læra og fá upplýsingar um, hvort sem það er raddtækni, lagasmíðar, styrkumsóknir,markaðssetningu á sjálfu sér,tónleikahald og allt það sem kemur að því að vera tónlistarfólk í dag.
Aldís Fjóla Borgfjörð Ásgeirsdóttir
Eigandi Gleymmérei Music

Um Aldísi Fjólu
Aldís Fjóla er tónlistarkona, Complete Vocal Raddþjálfi, Music Coach, leiðbeinandi í þerapíunni Lærðu að elska þig og viðburðarstýra. Ásamt því er hún sveitastelpa í húð og hár frá Borgarfirði eystra með vott af miðbæjarrottu, ástríðu fyrir skipulagninu og heimshornaflakkara.
Aldís Fjóla hefur lifað og hrærst í tónlist frá unga aldri. 17 ára byrjaði hún að læra klassískan söng hjá W. Keith Reed á Egilsstöðum ásamt því að taka virkan þátt í leik-og söngstarfi Menntaskólans á Egilsstöðum. Þegar komið var í höfuðborgina hélt hún áfram að læra en færði sig yfir í djazz- og poppsöng hjá Gullu Ólafsdóttur.
Árið 2006 vaknaði Aldís Fjóla við símtal frá Heru Björk Þórhallsdóttur, tónlistarkonu og tveimur vikum seinna var Aldís mætt til Kaupmannahafnar í nám við Complete Vocal Institute. Í þeim skóla breyttist allt og Aldís fann sig í sinni rödd og einhvern veginn þá tækni sem hjálpaði henni að syngja allt það sem hún þráði að prófa að syngja og ögra sér með. Í dag er Aldís útskrifaður CVT Raddþjálfi. Hún tók einnig þátt í The Voice á Íslandi árið 2015.
Árið 2017 byrjaði Aldís Fjóla nám í Söngsteypunni og tók þar námskeiðin Söng og Sjálfstraust og Samsteypuna, áður en hún keypti sig inn í skólann og varð eigandi og kennari í skólanum sjálfum. Aldís Fjóla hefur einnig gefið út tvær plötur með lögum eftir sjálfa sig og Stefán Örn Gunnlaugsson, tónlistarmann og upptökustjóra, haldið tónleika út um allt land undir sínu nafni og komið fram á Bræðslunni á Borgarfirði eystra ásamt fleiri tónlistarhátíðum.
Ég hef skipulagt og haldið ótal tónleika um allar trissur og nú síðast fyllti ég Iðnó, var hirðljósmyndari hjá tónlistarhátíðinni Bræðslunni á Borgarfirði eystra, CVT Raddþjálfi, hef skipulagt lagasmíðabúðir og námskeið um flest allt tengt tónlistarbransanum og er gríðarlegur peppari fyrir öll þau sem vilja og þarfnast þess að hafa einhverja í sínu horni sem hvetur þau áfram, gefur þeim "deadline" eða vilja bara tala upphátt um draumana sína og markmið. Ég brenn fyrir að hjálpa fólki að vinna í sjálfu sér og finna sína leið í lífinu.
- Aldís Fjóla